Selfyssingar léku á als oddi þegar þeir tóku á móti KH í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á gervigrasinu á Selfossi í kvöld.

Eftir aðeins níu mínútna leik var staðan orðin 2-0, en þá höfðu Jökull Hermannsson og Hrvoje Tokic báðir náð að skora. Tokic bætti öðru marki við undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 3-0 í leikhléi.

KH náði að minnka muninn í 3-2 á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks en þá tóku Selfyssingar aftur við sér. Tokic innsiglaði þrennuna á 60. mínútu og á lokakaflanum bættu Arilíus Óskarsson og Reda Maamar við mörkum fyrir Selfoss. Lokatölur 6-2.

Selfoss er í toppsæti riðils-2 í B-deildinni með 6 stig eftir tvær umferðir.