Tokic með þrennu gegn gömlu félögunum

Hrvoje Tokic með boltann í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur á Víkingi Ólafsvík í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 5-3 en sex mörk voru skoruð í fyrri hálfleik.

Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir á 10. mínútu og korteri síðar var hann búinn að koma boltanum aftur í netið. Víkingur minnkaði muninn á 39. mínútu en Kenan Tududija kom Selfyssingum í 3-1 tveimur mínútum síðar. Strax í næstu sókn fengu Selfyssingar svo vítaspyrnu og úr henni innsiglaði Tokic þrennuna gegn sínu gamla liði. Markaveislan í fyrri hálfleik var þó ekki búin því að á lokamínútunni fengu gestirnir víti og minnkuðu muninn í 4-2. Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri og krafturinn sem einkennt hafði Selfyssinga í fyrri hálfleik var ekki til staðar. Víkingur minnkaði muninn í 4-3 á fyrstu mínútu síðari hálfleik og það var ekki fyrr en í uppbótartímanum að Tokic renndi boltanum innfyrir á Gary Martin sem kláraði færið vel og tryggði Selfyssingum 5-3 sigur.

Selfyssingar sitja áfram í 10. sæti deildarinnar, nú með 8 stig og hafa slitið sig örlítið frá Þrótti sem er í 11. sætinu. Víkingur Ó er með 1 stig í neðsta sætinu og hefur ekki unnið leik í sumar.

Fyrri greinUppsveitir sóttu stig í Borgarfjörðinn
Næsta greinFyrsta tap Ægis í sumar