Tokic kominn í tuttugu mörk

Hrvoje Tokic og Þormar Elvarsson fagna marki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Völsungi í 2. deild karla í knattspyrnu í dag á Selfossvelli. Lokatölur urðu 4-1.

Selfyssingar voru sterkari í upphafi leiks og Gylfi Dagur Leifsson kom þeim yfir á 19. mínútu eftir góðan undirbúning Kenan Turudija. Eftir markið féllu Selfyssingar til baka en áttu þó ágætar sóknir og Hrvoje Tokic fékk t.d. dauðafæri á lokamínútunni en skaut framhjá. 1-0 í hálfleik.

Tokic var hins vegar maður seinni hálfleiksins því hann gerði sér lítið fyrir og hlóð í þrennu annan leikinn í röð. Hann kom Selfyssingum í 2-0 á 55. mínútu og 3-0 á 67. mínútu en fimm mínútum síðar minnkuðu gestirnir muninn.

Guðmundur Tyrfingsson fiskaði vítaspyrnu fyrir Selfoss á 87. mínútu og Tokic fór á punktinn og innsiglaði þrennuna um leið og hann tryggði Selfyssingum 4-1 sigur. Þetta var tuttugasta mark Hrvoje Tokic í deildinni, sjötti sigur Selfyssinga í röð í deildinni og þriðji leikurinn í röð sem fer 4-1.

Selfoss þarf að klára sitt og treysta á aðra
Þrátt fyrir sigurinn eru Selfyssingar áfram í 3. sæti deildarinnar þar sem Leiknir Fáskrúðsfirði valtaði yfir Vestra á heimavelli, 4-0 í dag. Leiknir fór því í efsta sætið með 43 stig, Vestri hefur 42 og Selfoss 41. Selfoss þarf að vinna Kára á útivelli í lokaumferðinni og treysta á að Leiknir tapi stigum gegn Fjarðabyggð, sem er í 9. sæti, eða að Vestri tapi stigum gegn botnliði Tindastóls.

Fyrri greinHeyrnarmæling nýbura í boði á Suðurlandi
Næsta greinÆgismenn Íslandsmeistarar í 4. deild