Tokic jafnaði á síðustu stundu 

Hrvoje Tokic og Þór Llorens skoruðu báðir fyrir Selfoss í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss gerði 1-1 jafntefli við Dalvík/Reyni í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, þegar liðin mættust í Boganum á Akureyri.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill, Selfoss sótti meira en Dalvíkingar vörðust vel og gáfu fá færi á sér. Staðan var 0-0 í leikhléi.

Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik en Dalvík/Reynir varð fyrri til að skora og þar var að verki Pálmi Birgisson á 75. mínútu. 

Selfyssingar sóttu án afláts á lokakaflanum og ljóst að eitthvað varð undan að láta. Þremur mínútum fyrir leikslok tókst Hrvoje Tokic loks að jafna eftir glæsilega sendingu frá Guðmundi Tyrfingssyni. 

Selfoss er enn í toppsæti deildarinnar með 10 stig en Völsungur, sem hefur 9 stig og Víðir sem hefur 7 stig eiga leik til góða á Selfoss.

Næsti leikur Selfoss í deildinni er ekki fyrr en 10. júní, þegar KFG kemur í heimsókn á Selfossvöll.

Fyrri greinÆgismenn skoruðu sautján mörk
Næsta greinFreyr bjargvættur Árborgar