Töfrar Tokic kláruðu Kára

Selfyssingar fagna marki í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir upp í 3. sætið í 2. deild karla í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Kára frá Akranesi á Selfossvelli í dag. Selfoss hefur þar með unnið þrjá leiki í röð og lyft sér upp um nokkur sæti á meðan.

Fyrri hálfleikur var stórskemmtilegur og bæði lið áttu álitlegar sóknir. Káramenn náðu að opna Selfyssinga oftar en einu sinni á fyrstu tuttugu mínútunum en gekk illa að hitta á markið. Hinu megin á vellinum fékk Ingvi Rafn Óskarsson besta færi Selfoss en lét verja frá sér á tólftu mínútu og tvívegis náðu Káramenn að bjarga á línu í fyrri hálfleik eftir darraðadans uppúr föstum leikatriðum Selfyssinga.

Staðan var 0-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn byrjaði rólega. Á 54. mínútu kom Hrvoje Tokic inná í framlínu Selfyssinga en hann hefur verið að glíma við meiðsli í allt sumar. Tokic sýndi að hann er samt með töfra í takkaskónum því fjórum mínútum síðar sólaði hann nokkra varnarmenn Kára og markvörðinn Hodzic uppúr skónum og skoraði af öryggi.

Lokakaflinn var fjörugur og Selfyssingar fengu nokkur mjög góð færi en var fyrirmunað að skora, enda var Hodzic í fínu formi í markinu hjá Kára. Káramenn áttu líka sínar sóknir og í uppbótartímanum fengu þeir algjört dauðafæri en Andri Júlíusson skaut framhjá af stuttu færi.

Selfoss er í 3. sæti með 22 stig, eins og Þróttur Vogum sem er í 2. sæti. Þróttarar hafa betra markahlutfall eftir að hafa lagt Dalvík/Reyni 3-0 í dag. Þá vann Fjarðabyggð Hauka í toppbaráttunni sem varð til þess að Haukar fóru niður um þrjú sæti, niður í það fimmta.

Næsti leikur Selfoss er gegn botnliði Völsungs á Húsavík næstkomandi laugardag.

Fyrri greinAtli Ævar bestur á Ragnarsmótinu
Næsta greinRættist úr vinnusumrinu í Þórsmörk