Töfrandi stemning í Kerlingarfjöll ULTRA

Ljósmynd/Cindy Rún Li

Utanvegahlaupið Kerlingarfjöll ULTRA var haldið í annað sinn í gær, 26. júlí, og var metaðsókn í hlaupið. Keppendur spreyttu sig á þremur hlaupaleiðum á miðhálendinu og tókust á við krefjandi aðstæður með bros á vör.

„Viðburðurinn gekk vonum framar og það er gaman að geta haldið þetta hlaup í annað sinn. Hálendi Íslands er einstakt og náttúruhlauparar og aðrir sem hafa gaman af því að njóta útivistar í ævintýralegu umhverfi lögð leið sína í Kerlingarfjöll til þess að taka þátt eða hvetja. Við erum hæstánægð með hlaupið,” segir Helga María Heiðarsdóttir,
framkvæmdastjóri hlaupsins.

Hlaupaleiðirnar voru 12 kílómetrar, 22 kílómetrar og 60 kílómetrar og var mest þátttaka í 22 kílómetra hlaupinu, en þar voru 226 hlauparar ræstir út. Það var töfrandi stemning á hálendinu allan daginn, enda fjöldi hlaupara og aðstandenda saman komnir í hálendismiðstöðinni.

Ljósmynd/Cindy Rún Li
Ljósmynd/Cindy Rún Li
Ljósmynd/Cindy Rún Li

Í fyrsta sæti í 60 km keppninni og þ.a.l. einnig í kvennaflokki var Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 5:56,21 klst og í karlaflokki var það Gunnar Lárus Karlsson sem fór með sigur af hólmi á tímanum 6:52,40 klst.

Í 22 km vegalengdinni var það Þorsteinn Roy sem sigraði karlaflokkinn á tímanum 1:53,28 klst og bætti þar með brautarmetið frá því í fyrra um tæpar 17 mínútur og Halldóra Huld Ingvarsdóttir sem sigraði í kvennaflokki á tímanum 2:30,37 klst og bætti þar með brautarmet kvenna frá því í fyrra um 6 mínútur.

Í 12 km voru það Daníel Darri Gunnarsson og Þórey Hákonardóttir sem sigruðu karla- og kvennaflokk, á tímunum 1:09,56 klst og 1:19,26 klst. Frekari úrslit má nálgast á timataka.is.

Hlaupaleiðirnar lágu um margar af perlum Kerlingarfjalla og má þar helst nefna hina mögnuðu Hveradali og Kerlingu, sem fjallgarðurinn dregur nafn sitt af. Á leiðinni er útsýni yfir miðhálendið og jöklana tvo sem fjallgarðurinn liggur á milli, Hofsjökul og Langjökul. Heildarhækkun í 60 km leiðinni, er um 2.100 metrar og þar munar mest um Sléttaskarð á milli Ögmundar og Hattar sem hlauparar klífa eftir um 34 km hlaup.

Ljósmynd/Cindy Rún Li

Markmiðið að verja viðkvæmt landslag
Markmið skipuleggjenda er ávallt að verja viðkvæmt landslagið og því er hlaupið skipulagt í nánu og góðu samstarfi við Umhverfisstofnun. Mikið er lagt upp úr því að hafa lágmarksáhrif á umhverfið og landslag svæðisins, enda fer hlaupið fram á friðlýstu náttúruverndarsvæði. Keppendur voru sérstaklega minntir á að hlaupa ekki utan stíga, bæði fyrir hlaup og í brautinni sjálfri, og eins var það tryggt að hlauparar bæru með sér rusl á milli drykkjarstöðva svo ekkert sorp yrði eftir úti í náttúrunni. Eins voru gestir hvattir til að sameinast í bíla til að lágmarka ágang.

„Náttúran er okkar verðmætasta auðlind og okkar markmið er alltaf að lifa í sátt og samlyndi við hana. Íslendingar eiga líka mikið inni í heimsóknum á miðhálendið og við erum því stolt af því að geta boðið hlaupurum fyrsta flokks gistingu og dásamlega afþreyingu hér í fjöllunum. Veðrið gerir samt bara það sem það vill og við mætum því með bros á vör, eins og öllu öðru,“ sagði Helga að lokum.

Ljósmynd/Cindy Rún Li
Fyrri greinNaumt tap í hörkurimmu á Hvammstanga
Næsta greinErlendur ferðamaður lést við Hrafntinnusker