TM vann Guðjónsmótið

Lið Trygginga-miðstöðvarinnar, TM Legends, sigraði Sjóvá í úrslitaleik Guðjónsmótsins, innanhússknattspyrnumóts sem haldið var í dag á Selfossi til minningar um Guðjón Ægi Sigurjónsson.

Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið en á fyrstu tveimur mótunum sigraði snyrtistofan Myrra. Meistararnir í Myrru þurftu að sjá á eftir titlinum en liðið lenti í 3. sæti eftir 3-2 sigur á liði Bónus.

Úrslitaleikurinn milli TM og Sjóvá var æsispennandi. Hjörtur Júlíus Hjartarson kom TM yfir snemma leiks en þegar 19 sekúndur voru eftir jafnaði Njörður Steinarsson eftir þunga sókn Sjóvá. TM brunaði í sókn og fékk hornspyrnu og uppúr henni skoraði Henning Eyþór Jónasson sigurmarkið þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum.

Það er knattspyrnudeild Umf. Selfoss sem heldur mótið til fjáröflunar en í ár tóku 24 lið þátt í mótinu og var hörð og jöfn keppni í riðlunum.

Athyglisverðustu leikmenn mótsins voru valin Íris Sverrisdóttir, Kaffi-Krús og Ármann Ingi Sigurðsson sem fór á kostum í markinu hjá TRS. Þá fékk lið Stofunnar verðlaun fyrir bestu búningana og almenna snyrtimennsku.

Dagurinn er ekki búinn hjá sunnlenskum knattspyrnuunnendum því að í kvöld verður stórdansleikur í Hvítahúsinu með Boltabandinu.

gudjonsmot2012TM_gk_647274365.jpg
Lið TM var stjörnum prýtt. Efri röð f.v. Leifur Viðarsson, Elvar Gunnarsson, Henning Jónasson, Eyjólfur Viðar Grétarsson, Reynir Freyr Jakobsson, Stefán Hólmgeirsson og Bárður Guðmundarson, eigandi liðsins. Neðri röð f.v. Sigurður Fannar Guðmundsson, Herbert Viðarsson, Jón St. Sveinsson, Bjarki Þór Sævarsson, Gunnar Ólason, Sævar Þór Gíslason og Hjörtur J. Hjartarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

gudjonsmot2012sjova_gk_411682899.jpg
Lið Sjóvár var að stærstum hluta skipað hinum gríðarlega sterka og ósigrandi ’78 árgangi knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

gudjonsmot2012stofan_gk_821396323.jpg
Lið Stofunnar fékk búningaverðlaunin, þó að þeir hafi ekki skartað búningunum við verðlaunaafhendinguna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl