„Tíu sunnlenskar sveitastelpur“

Selfoss vann öruggan sigur á Fylki í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á JÁVERK-vellinum voru 4-0 í leik þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn og mikil barátta úti á vellinum. Selfyssingar stýrðu þó leiknum og áttu nokkur ágæt færi en Fylkiskonur lágu aftarlega og treystu á skyndisóknir. Bæði lið fengu dauðafæri í fyrri hálfleik en inn fór knötturinn ekki og staðan var 0-0 í hálfleik.

Strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks fékk Fylkiskonan Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir sitt annað gula spjald og þar með brottvísun eftir að hafa brotið á Guðmundu Óladóttur. Manni færri riðlaðist varnarleikur Fylkisliðsins nokkuð og Selfyssingar náðu ítrekað að opna vörn þeirra upp á gátt.

Kristrún Rut Antonsdóttir kom Selfyssingum yfir á 59. mínútu eftir hornspyrnu og sex mínútum síðar skoraði Guðmunda gott mark eftir skyndisókn og fyrirgjöf frá vinstri frá Evu Lind Elíasdóttur.

Selfyssingar voru ekki hættir og á 72. mínútu skoraði Karitas Tómasdóttir þriðja mark Selfoss eftir klafs í teignum uppúr hornspyrnu. Fylkiskonur voru ósáttar við að markið stæði en Tinna Bergþórsdóttir gekk lengst í mótmælunum og uppskar fyrir það rautt spjald. Gestirnir voru því orðnir níu á móti ellefu og tuttugu mínútur eftir.

Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Selfyssinga og Guðmunda kórónaði 4-0 sigur þeirra vínrauðu með glæsilegu marki í uppbótartíma þar sem hún hamraði knöttinn í nærhornið með skoti utan teigs.

„Þetta var hörkuleikur og mikil skemmtun. Það er gaman að segja frá því að það byrjuðu tíu sunnlenskar sveitastelpur leikinn með einn Ameríkana í markinu og þær sýndu heldur betur hvað í þeim býr,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar eru í 5. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir, með 26 stig, en liðið á eftir útileik gegn FH og heimaleik gegn Val. Gunnar segir markmiðin skýr fyrir lokaleikina.

„Við settum okkur það markmið að ná að lágmarki sex stigum af þeim níu sem í boði eru í síðustu þremur leikjunum. Með því að vinna næsta leik þá náum við því markmiði, og setjum okkur þá nýtt markmið fyrir lokaleikinn. Þetta er ekki flókið,“ sagði Gunnar léttur í lund eftir góðan sigur.

Fyrri greinElmar Darri og Heiðar Örn Íslandsmeistarar
Næsta greinSigrún valin sveitarlistamaður ársins