Tíu Selfyssingar töpuðu

Kenan Turudija fékk rautt spjald í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss varð af mikilvægum stigum í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið tapaði fyrir Þrótti Vogum á útivelli í kvöld, 1-0.

Þetta var hörkuleikur í belgingnum á Reykjanesinu. Selfyssingar léku manni færri í sextíu mínútur en Kenan Turudija lét reka sig af velli um miðjan fyrri hálfleikinn eftir að hafa lent í útistöðum við Ragnar Þór Gunnarsson, fyrrum leikmann Selfoss.

Þróttur komst yfir snemma í seinni hálfleik og fleiri mörk voru ekki skoruð þrátt fyrir ágæt tilþrif og sóknir beggja liða.

Eftir sex umferðir eru Selfyssingar í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en Þróttur er í 4. sæti með 11 stig.

Fyrri greinBleik snjókoma á Selfossi
Næsta greinStórsigur Stokkseyringa