Tíu Selfyssingar sigruðu Hauka

Ingvi Rafn Óskarsson skoraði fyrir Selfoss. Ljósmynd/fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Selfoss vann frábæran 1-2 sigur á Haukum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld þrátt fyrir að hafa verið manni færri í 70 mínútur.

Leikurinn var tíðindalítill þar til á 23. mínútu að uppúr sauð eftir að brotið var á leikmanni Hauka. Guðmundur Tyrfingsson fékk rautt spjald í þessum látum fyrir að ýta leikmanni Hauka, sem sjálfur var ekki alsaklaus en slapp með gult spjald.

Manni færri bökkuðu Selfyssingar og vörðust skipulega og staðan var 0-0 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki nógu vel hjá Selfyssingum og Haukar komust yfir með skallamarki á fjórðu mínútu seinni hálfleiks.

Forysta Hauka hélt þó skammt því fjórum mínútum síðar jafnaði Ingvi Rafn Óskarsson metin með skoti af stuttu færi eftir laglega sókn Selfyssinga. Tíu gegn ellefu voru Selfyssingar síst lakari aðilinn en bæði lið fengu ágæt færi áður en Hrvoje Tokic skoraði sigurmark Selfoss á 73. mínútu þegar hann fékk góða sendingu innfyrir vörn Hauka. 

Haukar sóttu meira á lokakaflanum en Selfossvörnin hélt og fögnuður Selfyssinga var mikill í lokin.

Selfyssingar eru í 3. sæti deildarinnar með 9 stig, eins og Haukar sem eru í 2. sæti en topplið Kórdrengja er með 10 stig.

Fyrri greinSveitabúðin Una með glæsilegan grænmetismarkað og kjöt beint frá býli
Næsta greinHSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára