Tíu Selfyssingar náðu í stig

Afmælisbarnið Ólafur Karl Finsen tryggði Selfossi eitt stig þegar hann jafnaði metin í lokin fyrir liðið gegn Víkingi Ólafsvík í Lengjubikarnum í knattspyrnu í kvöld.

Ólafur Karl sem varð tvítugur í dag skoraði bæði mörk Selfoss, hann jafnaði 1-1 á 44. mínútu og síðan 2-2 á 85. mínútu. Afmælisbörnin hjá Selfyssingum voru í aðalhlutverki en Elías Örn Einarsson, markvörður, varð þrítugur í dag en hann fékk rauða spjaldið í afmælisgjöf á 41. mínútu eftir að hafa brotið á sóknarmanni Víkings. Hinn 17 ára gamli Gunnar Már Hallgrímsson fór í markið.

Víkingar komust yfir á 23. mínútu en þremur mínútum eftir að Elías fór af velli jafnaði Ólafur Finsen og staðan var 1-1 í hálfleik.

Víkingar komust aftur yfir á 63. mínútu en Ólafur jafnaði aftur þegar fimm mínútur voru eftir. Engu munaði að Ingi Rafn Ingibergsson tryggði Selfossi sigur í lokin. Hann tók þá endurtekna hornspyrnu, fékk boltann aftur og þrumaði á markið en Einar Hjörleifsson markmaður Víkinga náði að blaka boltanum yfir þverslánna. Lokastaðan í leiknum því 2-2.

Víkingarnir eru í fjórða sæti riðilsins með átta stig en Selfoss í því sjöunda með fjögur stig en bæði hafa leikið sex af sjö leikjum sínum.