Tíu Selfyssingar héldu aftur af Þrótturum

Gary Martin í strangri gæslu varnarmanna Þróttar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar héldu upp á 87 ára afmæli Ungmennafélags Selfoss í dag með sterkum heimasigri á Þrótti Reykjavík í Lengjudeild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 2-1 eftir æsispennandi lokakafla.

Adrian Sanchez kom Selfyssingum yfir strax á 8. mínútu eftir klafs í teignum uppúr löngu innkasti Reynis Freys Sveinssonar. Selfyssingar voru sterkari framan af og á 21. mínútu tvöfölduðu þeir forystuna með hrikalega klaufalegu sjálfsmarki Þróttar. Aron Fannar Birgisson átti skot í stöng og í tilraunum sínum til að hreinsa frá spörkuðu varnarmenn Þróttar boltanum í hvorn annan og þaðan fór hann í netið.

Staðan var 2-0 í hálfleik og Selfyssingar litu vel út en hlutirnir voru fljótir að breytast í seinni hálfleik. Oskar Wasilewski fékk sitt annað gula spjald á 55. mínútu og var því sendur beint í sturtu. Manni fleiri þjörmuðu Þróttarar heldur betur að Selfyssingum. Gestirnir fengu nokkur mjög góð færi en það var ekki fyrr en á 86. mínútu að þeir náðu að nýta sér liðsmuninn með marki frá Izaro Abella. Þróttarar fengu síðan dauðafæri á lokamínútunni en vörn Selfoss og Stefán Ágústsson í markinu áttu frábæran leik og Selfyssingar fögnuðu innilega með stuðningsmönnum sínum í leikslok.

Selfoss er áfram í 4. sætinu, nú með 9 stig en Þróttur er í 8. sæti með 4 stig.

Fyrri greinFlügger flytur og stækkar
Næsta greinGuðrún opnar sýningu í Sesseljuhúsi