Tíu Rangæingar sneru leiknum við

Hjörvar Sigurðsson skoraði úr tveimur vítaspyrnum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga lyfti sér úr fallsæti í 3. deild karla í kvöld með því að sigra Berserki 3-2 á SS-vellinum á Hvolsvelli.

Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir strax á 4. mínútu leiksins og var það eina mark fyrri hálfleiks. Útlitið versnaði nokkuð hjá Rangæingum á 26. mínútu þegar Almir Cosic fékk beint rautt spjald fyrir olnbogaskot og er hann á leið í tveggja leikja bann þar sem þetta er annað rauða spjaldið hans í sumar.

Staðan var 0-1 í hálfleik en KFR náði að jafna metin á 65. mínútu. Þar var að verki Reynir Óskarsson en hann skallaði knöttinn snyrtilega í netið eftir sendingu frá Guðmundi Garðari Sigfússyni.

Fimm mínútum síðar komust Rangæingar svo yfir og nú var það Hjörvar Sigurðsson sem stangaði boltann inn eftir að Lárus Viðar Stefánsson hafði flikkað boltanum inn í vítateiginn.

Gestirnir jöfnuðu metin á 79. mínútu en manni færri náðu Rangæingar að knýja fram góðan sigur með marki Hjörvars Sigurðssonar, mínútu fyrir leikslok. Guðmundur Garðar átti þá góða sendingu frá vinstri og Hjörvar kláraði færið vel úr vítateignum.

KFR hefur nú 13 stig í 8. sæti deildarinnar og er aðeins fjórum stigum á eftir Leikni Fáskrúðsfirði sem er í toppsætinu.

Fyrri greinÁsta með samtals 1,6 milljón í laun á mánuði
Næsta greinBachsveitin í Skálholti