Tíu marka tap í Safamýrinni

Selfoss tapaði með tíu marka mun þegar liðið sótti Fram heim í Safamýrina í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

Fram hafði yfirhöndina allan tímann og staðan var orðin 5-1 eftir tíu mínútna leik. Selfoss minnkaði muninn í 8-6 en þá skoruðu Framarar fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni í 12-6. Selfoss skoraði aðeins eitt mark á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og staðan var 18-9 í leikhléi.

Heimakonur héldu sínu örugga forskoti allan seinni hálfleikinn, og rúmlega það, því munurinn varð mestur fjórtán mörk, 26-12. Selfoss skoraði hins vegar síðustu fjögur mörk leiksins og lokatölur urðu 28-18.

Ída Bjarklind Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði 5, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Katla Björg Ómarsdóttir, Rakel Guðjónsdóttir, Elva Rún Óskarsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu allar 1 mark.

Viviann Petersen átti ágæta spretti í marki Selfoss og varði 12 skot.

Selfoss hefur áfram 7 stig í 6. sæti deildarinnar.

Fyrri greinGuðný kosin í nefnd á vegum FIA
Næsta greinStillt upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg