Tíu marka tap gegn toppliðinu

Elín Krista Sigurðardóttir sækir að marki Fram-U. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði með tíu mörkum þegar ungmennalið Fram, topplið 1. deildar kvenna í handbolta, kom í heimsókn í Hleðsluhöllina í kvöld.

Framliðið byrjaði mun betur og komst í 1-6 í upphafi leiks en þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður hafði Selfoss jafnað, 7-7. Framkonur juku forskotið aftur á lokamínútum fyrri hálfleiks og breyttu stöðunni úr 8-8 í 9-12 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Fram náði sex marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks og litu ekki til baka eftir það. Selfyssingar náðu ekki að brúa bilið og lokatölur urðu 19-29.

Elín Krista Sigurðardóttir var markahæst Selfyssinga með 5 mörk, Katla Björg Ómarsdóttir skoraði 4/3, Rakel Guðjónsdóttir 3, Agnes Sigurðardóttir, Elínborg Þorbjörnsdóttir og Ivana Raickovic skoruðu allar 2 mörk og Sólveig Ása Brynjarsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu.

Fyrri greinHættustigi almannavarna lýst yfir í Árnessýslu
Næsta greinGuðrún gefur kost á sér í 1. sætið