Tíu marka tap á Ásvöllum

Þrátt fyrir ágætis baráttu á köflum tapaði Selfoss stórt fyrir Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld þegar liðin mættust á Ásvöllum. Lokatölur urðu 35-25.

Staðan var 4-4 eftir sjö mínútna leik en þá tók við tíu mínútna kafli þar sem Haukar skoruðu sjö mörk gegn engu marki Selfyssinga. Selfoss svaraði með 1-5 áhlaupi og minnkaði muninn í 12-9 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Haukar juku forskotið hins vegar aftur og staðan var 16-11 í leikhléinu.

Haukar héldu sama forskoti framan af seinni hálfleiknum en gáfu svo í og voru komnir með níu marka forskot þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 26-17. Þar með voru úrslitin ráðin en að lokum skildu tíu mörk liðin að, 35-25.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 6/1 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 5/4, Einar Sverrisson 5, Hergeir Grímsson og Sverrir Pálsson 3, Guðni Ingvarsson 2 og Alexander Egan 1.

Helgi Hlynsson varði 6 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 1.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með 17 stig.

Fyrri greinGæsluvarðhald framlengt – braut gegn þremur konum
Næsta greinHamar og FSu með stórsigra