Tíu marka sigur Árborgar

Árborg stráfelldi Ísbjörninn þegar liðin mættust í 3. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur voru 10-0.

Leikurinn var einstefna að marki Ísbjarnarins. Eftir aðeins ellefu mínútna leik hafði Árni Páll Hafþórsson, fyrirliði Árborgar, skorað þrennu og fljótlega fylgdi fjórða markið úr vítaspyrnu frá Guðmundi Garðari Sigfússyni. Staðan var 4-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt veislan áfram. Ólafur Tryggvi Pálsson skoraði fimmta markið og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson bætti svo við tveimur mörkum í röð. Á eftir fylgdu mörk frá Arnari Frey Óskarssyni, Páli Óla Ólasyni og Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni.

Þrátt fyrir stóran sigur haggast Árborgarliðið ekkert upp töfluna og er áfram í 6. sæti.