Tíu HSK met á síðustu mótum ársins

Elín (t.v.) og Dýrleif í 3.000 m hlaupinu á Áramóti Fjölnis sl. mánudag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tíu héraðsmet í frjálsum íþróttum voru sett á síðustu mótum ársins nú um jól og áramót.

Á jólamóti Ármanns sem haldið var í Reykjavík 14. desember sl. bætti Kristófer Árni Jónsson úr Heklu HSK metið í 600 metra hlaupi í flokki 12 ára stráka. Hann hljóp á 1:47,28 mín, en Sigurjón Reynisson átti gamla metið sem var 1:50,78 mín.

Ísold Assa bætti 37 ára gamalt met
Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, setti HSK met í hástökki án atrennu í flokki 12 ára stelpna á Áramótamóti Selfoss þann 28. desember sl. Hún byrjaði á að jafna metið þegar hún stökk 1,15 m en bætti um betur og stökk einnig yfir 1,20 metra. Gamla metið hafði staðið í 37 ár, en árið 1982 settu Hulda Helgadóttir og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir met. Síðar náðu þær Birna Guðlaugsdóttir og Eva María Baldursdóttir að jafna metið.

Sjö met í sama hlaupinu
Síðustu HSK met ársins voru sett á Áramóti Fjölnis 30. desember sl. Þar hlupu þær Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir og Elín Karlsdóttir, báðar frá Umf. Selfoss, 3.000 metra hlaup innanhúss, fyrstar HSK kvenna. Dýrleif hljóp á 13:51,15 mín, sem er HSK met í flokki 13 ára stúlkna. Elín hljóp á 13:47,92 mín sem er met í sex flokkum frá 14 ára upp í kvennaflokk.

Ísold Assa Guðmundsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Kristófer Árni Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGlæsileg þrettándagleði á Selfossi
Næsta greinRúta valt í þjóðgarðinum á Þingvöllum