Tíu héraðsmet á MÍ öldunga

Jón M. Ívarsson setti héraðsmet í kúluvarpi. Ljósmynd: FRÍ/Hafsteinn Snær

Keppendur af sambandssvæði HSK röðuðu inn héraðsmetunum þegar Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum öldunga innanhúss var haldið í Laugardalshöllinni þann 14. janúar síðastliðinn.

Bryndís Eva Óskardóttir, Umf. Þjótanda, setti fjögur met í flokki 35-39 ára kvenna. Hún hljóp 60 m á 8,80 sek, stökk 1,30 m í hástökki og tvíbætti svo metið í langstökki þegar hún stökk 4,28 m og síðan 4,48 m. Bryndís Eva sigraði í þessum þremur greinum í sínum aldursflokki og fjórða gullið hlaut hún svo í kúluvarpi.

Þuríður Ingvarsdóttir, Umf. Selfoss, setti einnig fjögur héraðsmet, í flokki 50-54 ára. Hún hljóp 60 m hlaup á 9,40 sek, kastaði kúlunni 10,88 m, þar sem hún bætti eigið Íslandsmet í aldursflokknum um 12 cm og að lokum tvíbætti hún metið í langstökki, stökk 4,19 m og síðan 4,20 m. Þuríður vann gullið í öllum þessum greinum.

Guðbjörn Árnason, Umf. Þórsmörk, setti HSK met í flokki 60-64 ára karla þegar hann hljóp 60 metrana á 9,31 sek. Guðbjörn sigraði í 60 m hlaupinu og sömuleiðis í kúluvarpi.

Þá setti Jón M. Ívarsson, HSK, héraðsmet í flokki 70-74 ára karla þegar hann kastaði kúlu 8,29 m.

Fyrri greinFyrsta lagið af nýrri plötu Moskvít
Næsta greinAldamótahittarar Einars Bárðar á Sviðinu