Tíu Árborgarar náðu í stig

Árborg fékk sitt fimmta stig í 2. deildinni í sumar þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar á Selfossi í dag.

Heimamenn voru án nokkurra lykilmanna í dag en í lið þeirra vantaði bæði Jón Auðunn Sigurbergsson og Jakob Björgvin Jakobsson sem hafa verið fastamenn í sumar ásamt tvíburabræðrunum Kolbeini og Geir Kristinssonum sem voru nýlega kallaðir aftur heim úr láni frá Fjölni.

Heimamenn voru þó ekki með hugann við það á upphafsmínútum leiksins og strax á 2. mínútu voru þeir komnir yfir. Árborg fékk hornspyrnu strax á 2. mínútu og Alfie Kamara skallaði boltann í Guðmund Garðar Sigfússon sem stóð á marklínunni, til þess eins að stela markinu.

Kamara komst þó á blað á 25. mínútu á allt öðrum forsendum er hann fékk beint rautt spjald þegar hann renndi sér með tvo fætur í boltann. Árborgarar voru því einum færri í rúmar 70 mínútur með uppbótartíma en þannig börðust þeir vel og þéttu vörnina.

Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 5. mínútu seinni hálfleiks jöfnuðu Siglfirðingar. Árborg missti boltann í öftustu línu og Þórður Birgisson skoraði úr þröngu færi eftir góðan sprett inn á vítateig Árborgar.

Ekki tókst gestunum þó að nýta liðsmuninn frekar og Árborg var nær því að skora en Arnar Freyr Óskarsson fékk tvö dauðafæri á lokakaflanum. KF átti líka sínar tilraunir en Steinar Stefánsson var vandanum vaxinn í marki Árborgar.

KF var öllu sterkari aðilinn heilt yfir enda manni fleiri 2/3 hluta leiktímans en varnarleikur heimamanna hélt og því eitt sig það sem bæði lið þurftu að sætta sig við. Árborg situr enn á botni deildarinnar með 5 stig eins og ÍH.

Fyrri greinSelfosslögreglan í þyrlueftirliti
Næsta greinDramatík í lokin