Tíu Ægismenn töpuðu stórt

Atli Rafn Guðbjartsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn töpuðu nokkuð sannfærandi þegar þeir fengu topplið KV í heimsókn í 3. deild karla í knattspyrnu í gær.

Leikurinn var markalaus lengst af fyrri hálfleik en á 37. mínútu fékk Aco Pandurevic að líta rauða spjaldið og tíu gekk Ægismönnum verr að verjast.

Staðan var 0-1 í hálfleik og KV var komið í 0-3  um miðjan seinni hálfleikinn. Atli Rafn Guðbjartsson minnkaði muninn í 1-3 en KV átti lokaorðið og skoraði tvö mörk til viðbótar á síðustu þremur mínútum leiksins. Lokatölur 1-5.

Ægir er í 8. sæti 3. deildarinnar með 20 stig en KV er á toppnum með 40 stig.