Tíu Ægismenn töpuðu í Vesturbænum

Goran Potkozarac skoraði mark Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir heimsótti Knattspyrnufélag Vesturbæjar á KR-völlinn í kvöld í 3. deild karla í knattspyrnu.

Goran Potkozarac kom Ægi yfir á 15. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Ægismenn skoruðu sjálfsmark á upphafsmínútum seinni hálfleiks og tveimur mínútum síðar komst KV í 2-1. Ekki batnaði staðan hjá Ægi þremur mínútum eftir það þegar Miroslav Babic fékk sitt annað gula spjald og Ægismenn léku því manni færri í rúman hálftíma.

Þriðja mark KV kom svo úr vítaspyrnu á 89. mínútu og lokatölur urðu 3-1.

Ægir er nú í 10. sæti deildarinnar með 7 stig en KV er í 2. sæti með 15 stig.