Tíu Ægismenn tylltu sér á toppinn

Lið Ægis er komið í efsta sæti A-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu eftir góðan útisigur á Árborg á Selfossvelli í kvöld, 1-2.

Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir strax á 10. mínútu þegar Predrag Dordevic skoraði með góðu bogaskoti utan af velli yfir Elías Einarsson í marki Árborgar. Gestirnir voru nálægt því að komast í 0-2 sjö mínútum síðar þegar Ingi Rafn Ingibergsson reyndi skutluskalla á markteignum en náði ekki að teygja sig nógu vel í boltann.

Árborgarar sýndu ekki lífsmark fyrr en á 21. mínútu að Páll Óli Ólason átti ágætt skot rétt yfir markið en Milan Djurovic svaraði hinu megin á vellinum með liprum tilþrifum tveimur mínútum síðar. Hann tók boltann á kassann og þrumaði honum svo í stöngina. Mínútu síðar slapp Ingi Rafn innfyrir og reyndi að vippa yfir Elías en skotið fór framhjá.

Á 29. mínútu fengu Árborgarar dauðafæri þegar Kjartan Atli Kjartansson fékk boltann inni í markteignum en Magnús Karl Pétursson átti stórbrotna markvörslu og synjaði Kjartani um markið.

Síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks voru fjörugar. Á 43. mínútu tók Dordevic aukaspyrnu sem Elías varði vel út í teiginn en þar var Arilíus Marteinsson fyrstur að átta sig og kom Ægi í 0-2 með skoti í stöngina og inn.

Tveimur mínútum síðar var Guðmundur Garðar Sigfússon felldur inni í vítateig Ægis. Árborgarar vildu fá vítaspyrnu og höfðu heilmikið til síns máls. Dómarinn dæmdi hins vegar ekkert og þá upphófust kýtingar inni í teig sem lauk með því að Ægismaðurinn Gunnar Marteinsson fékk rautt spjald fyrir að hrinda Kjartani Atla.

Árborgarar byrjuðu síðari hálfleikinn vel og strax á 48. mínútu minnkaði Guðmundur Garðar muninn með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Snorra Sigurðarsonar. Manni færri lágu Ægismenn aftarlega og vörðust skipulega um leið og þeir reyndu skyndisóknir með hinn sprettharða Milan Djurovic á kantinum. Árborgarar náðu ekki að setja neina pressu á Ægi og sköpuðu sér ekki færi allan seinni hálfleikinn ef frá er talið mark Guðmundar.

Eina færið eftir það áttu Ægismenn þegar Matthías Björnsson fékk stungusendingu innfyrir. Matthías tók boltann á kassann og þrumaði rétt framhjá Árborgarmarkinu, umkringdur þremur Árborgurum sem fylgdust hugfangnir með tilþrifunum.

Ægir er nú á toppi A-riðils með 13 stig en næstu fjögur lið eiga leik til góða á Þorlákshafnarliðið. Árborg er áfram í 6. sæti riðilsins með 8 stig.