Tíu Ægismenn sigruðu – KFR tapaði

Ægir og KFR léku bæði í dag í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu. Ægir lagði KF 1-2 en KFR tapaði fyrir Gróttu, 2-3.

Ægir lék annan leik sinn á tveimur dögum þegar liðið mætti KF í Boganum á Akureyri en norðanmenn komust í 1-0 og leiddu í hálfleik. Ægir missti Róbert Rúnar Jack af velli í fyrri hálfleik en hann fékk verðskuldað rautt spjald fyrir ljótt brot.

Ægismenn lögðu ekki árar í bát og náðu að knýja fram sigur í seinni hálfleik en varamennirnir Þorkell Þráinsson og Daníel Rögnvaldsson skoruðu fyrir Ægi í síðari hálfleik og tryggðu þeim sigurinn. Ægir er í 3. sæti riðils-2 með 6 stig.

Á Selfossvelli tók KFR á móti Gróttu. Gestirnir komust yfir strax á 3. mínútu en Guðmundur Garðar Sigfússon jafnaði metin á 18. mínútu. Reynir Óskarsson tryggði Rangæingum svo 2-1 forystu fyrir hálfleik.

Gróttumenn voru sterkari í seinni hálfleik og þeir jöfnuðu á 55. mínútu en sigurmark gestanna kom tíu mínútum fyrir leikslok.

KFR er í 5. sæti riðils-1 með 3 stig en í lokaumferðinni um næstu helgi mæta Rangæingar Hamri á Selfossvelli.