Kvennalið Selfoss hóf keppni í 1. deildinni í handbolta í dag með góðum sigri á ungmennaliði HK í Kórnum í Kópavogi.
Selfoss leiddi 12-14 í leikhléi og hafði frumkvæðið áfram í seinni hálfleiknum en leiknum lauk með 26-29 sigri Selfoss.
Tinna Sigurrós Traustadóttir fór mikinn í liði Selfoss í dag og skoraði 10 mörk. Elín Krista Sigurðardóttir skoraði 6 mörk, Roberta Strope 5, Emilía Ýr Kjartansdóttir 4, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Inga Sól Björnsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu sitt markið hvor.
Næsti leikur Selfoss er á útivelli gegn Fjölni/Fylki næstkomandi fimmtudag. Fyrsti heimaleikur liðsins er ekki fyrr en 15. október þegar ÍR kemur í heimsókn.