Tindur ráðinn þjálfari Uppsveita

Tindur Örvar Örvarsson. Ljósmynd/Aðsend

Meistaraflokksráð Uppsveita hefur samið við Tind Örvar Örvarsson um að stýra liðinu í sumar. Tindur er 23 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þó nokkra reynslu í þjálfun og þekkir vel til neðri-deildarboltans á Íslandi.

Tindur er einn stofnenda FC Árbæjar og og stýrði hann því liði upp um deild í fyrstu tilraun tímabilið 2022 og gerði liðið svo gott mót ári seinna, 3 stigum frá því að fara aftur upp.

„Tindur og félagar í Árbæ fóru illa með lið Uppsveita í 8-liða úrslitum 4. deildar 2022 og unnu tveggja leikja rimmuna 8-2 og spilaði ítarleg leikgreining Tinds á liði okkar stóran þátt í því að leikar fóru svo. Tindur hallast að jákvæðum sóknarbolta en er mikill greinandi og tekur gjarnan ákvarðanir útfrá tölfræði og eiginleikum andstæðinga. Hreinræktaður nútímaþjálfari,“ segir í tilkynningu frá Uppsveitum.

Tindi til aðstoðar verður Aron Þormar Lárusson. Hann verður spilandi aðstoðarþjálfari og er spenntur fyrir nýju hlutverki en þetta er hans frumraun í þjálfun. Aron spilaði upp yngri flokka á Selfossi og hefur af og til spilað æfingaleiki með Uppsveitum þegar til hans er kallað.

Þess má til gamans geta að báðir eru Tindur og Aron með betri spilurum landsins í EAFC tölvuleiknum vinsæla og hafa þeir báðir verið í íslenska landsliðinu í eFótbolta frá 2020.

Uppsveitir hefja leik í deildarbikarnum í Nettóhöllinni Reykjanesbæ gegn Höfnum laugardaginn 24. febrúar kl 19.

Fyrri greinJafntefli í fyrsta leik Bjarna
Næsta greinHamar bikarmeistari fjórða árið í röð