Tindastóll hafði betur á Selfossi

Karen Rós Torfadóttir. Ljósmynd/Selfoss

Kvennalið Selfoss tapaði 1-2 þegar Tindastóll kom í heimsókn í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu í dag.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og komust yfir á 16. mínútu með marki frá Melissu Garcia. Eftir markið tóku Selfyssingar völdin og sýndu sínar bestu hliðar. Þær uppskáru frábært mark á 40. mínútu þegar varamaðurinn Guðrún Þóra Geirsdóttir stangaði fyrirgjöf Barbáru Sólar Gísladóttur í netið, hennar fyrsta mark í efstu deild.

Selfoss náði ekki að fylgja þessum góða kafla eftir í seinni hálfleik, þar sem gestirnir stýrðu umferðinni lengst af. Selfossliðið fékk þó tvö dauðafæri og heilt yfir betri færi en Stólarnir í seinni hálfleiknum. Á 81. mínútu slapp sóknarmaður Tindastóls innfyrir og Karen Rós Torfadóttir í marki Selfoss braut á henni. Hannah Cade fór á vítapunktinn, skoraði af öryggi og tryggði Tindastól sigurinn.

Karen Rós, sem er 18 ára gömul, var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild og stóð sig frábærlega. Fleiri ungir leikmenn fengu að spreyta sig og bandarísku leikmennirnir voru ekki í hópnum í dag, þannig að segja má að undirbúningurinn fyrir Lengjudeildina 2024 sé þegar hafinn. Selfyssingar voru fallnir fyrir leikinn í dag en það ræðst ekki fyrr en í lokaumferðinni hvaða lið fylgir þeim niður.

Fyrri greinEngin svör í seinni hálfleik
Næsta greinÆvintýralegt ferðalag að Fjallabaki