Tímabilið fer vel af stað hjá Hamri

Íris Ásgeirsdóttir skoraði 10 stig í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar lagði ÍR að velli í 1. umferð 1. deildar kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í gærkvöldi í íþróttahúsinu í Hveragerði.

Eftir jafnar upphafsmínútur sýndu Hamarskonur klærnar og náðu forskoti undir lok 1. leikhluta, 15-9. Staðan var 32-23 í leikhléi.

ÍR byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði að minnka muninn niður í eitt stig, 36-36. ÍR pressaði stíft á Hamar sem lentu í smá basli við að leysa pressuna. Hamarskonur leystu úr því og skoruðu í kjölfarið ellefu stig í röð. Liðið var að spila góðan varnarleik í seinni hálfleik og voru Helga Sóley Heiðarsdóttir og Íris Ásgeirsdóttir sérstaklega grimmar að stela boltum.

Hamar hélt svo nokkuð öruggri forystu allan síðasta leikhlutann og urðu lokatölur 69-56.

Það var sérstaklega gaman að sjá Írisi Ásgeirsdóttur aftur á parketinu en hún átti stórleik í gærkvöldi. Einnig var gaman að sjá þrjá unga leikmenn stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki en þær koma frá Hrunamönnum. Það eru þær Una Bóel Jónsdóttir, Margrét Thorsteinson og Perla María Kristjánsdóttir sem stóðu sig allar mjög vel. Perla María átti mjög flotta innkomu af bekknum og skoraði mikilvægar körfur í síðari hluta leiksins. Álfhildur Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir áttu sömuleiðis góðan leik.

Það var vel mætt í íþróttahúsið í Hveragerði í gærkvöldi og tímabilið fer vel af stað hjá Hamarskonum. Næsti leikur þeirra er í Njarðvík laugardaginn 13. október.

Tölfræði Hamars: Íris Ásgeirsdóttir 18/7 fráköst/5 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 13, Helga Sóley Heiðarsdóttir 11/5 fráköst/5 stolnir, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 11/18 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 5, Bjarney Sif Ægisdóttir 5, Adda María Óttarsdóttir 4, Fríða Margrét Þorsteinsdóttir 2/6 fráköst.

Fyrri greinBæjarráð býður ungmennum í bíó
Næsta grein„Alvöru heilsudjamm í Hveragerði“