Tímabilið búið hjá Jóni Daða

Jón Daði meiddist í leik gegn Portsmouth. Ljósmynd/Bolton Wanderers

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson mun ekki spila meira með Bolton í 1. deildinni á Englandi í vetur þar sem hann þarf að fara í aðgerð vegna ökklameiðsla.

Jón Daði fór meiddur af velli í 3-0 sigri gegn Portsmouth um síðustu helgi eftir að hafa lent illa eftir skallaeinvígi.

Honum hefur gengið vel upp við mark andstæðinganna í vetur og skorað átta mörk en misst talsvert úr vegna meiðsla. Hann var nýlega kominn aftur til baka eftir nefbrot þegar hann meiddist í leiknum gegn Portsmouth.

„Jón mun missa af síðustu leikjum tímabilsins þar sem hann þarfnast aðgerðar eftir að hafa skaddað liðbönd í ökkla. Það er miður, því hann var að komast aftur í sitt besta form eftir að hafa misst úr vegna meiðsla fyrr á tímabilinu,“ sagði knattspyrnustjórinn Ian Evatt á heimasíðu Bolton.

„Það er frábært að vinna með Jóni og við munum halda honum í hópnum, halda honum einbeittum og jákvæðum og hlökkum til að taka á móti honum aftur,“ bætti Evatt við.

Fyrri greinFærð gæti spillst vegna veðurs
Næsta greinÞór gaf eftir í seinni hálfleik