Tímabilið mögulega búið hjá Henning

Henning Eyþór Jónasson, miðjumaður Selfyssinga, er frá keppni næstu mánuðina vegna hnémeiðsla.

Þetta er áfall fyrir Selfyssinga en Henning hefur verið lykilmaður í miðjuspili liðsins. Hann verður ekki í leikmannahópnum gegn KR á morgun en hann fer í aðgerð á mánudag.

„Liðþófinn er skemmdur en læknirinn grunar að það séu einhverjar brjóskskemmdir líka. Ef það er svoleiðis þá erum við að tala um þrjá til fjóra mánuði sem ég er frá,“ sagði Henning í samtali við sunnlenska.is. “Þetta kemur betur í ljós á mánudaginn, ég fer í myndatöku þá og vonandi strax í speglun á eftir.”

Henning var hafði fundið til í hnénu fyrir æfingaleikinn gegn Gróttu á dögunum og fékk svo slink á hnéð í leiknum sjálfum. „Ég vissi strax þá að það væri eitthvað að, ég reyndi að harka af mér á móti Fylki en þegar var komið fram í seinni hálfleik þá fann ég að þetta var ekki að ganga,“ segir Henning.

Tímabilið er því líklega búið fyrir miðjumanninn sterka og skiljanlega er þungt í honum hljóðið. „Þetta var það versta sem gat komið fyrir. Maður er búinn að bíða eftir almennilegu tækifæri í úrvalsdeildinni og þá gerist þetta. Það þýðir samt ekkert að væla yfir þessu, ég stefni bara á að ná mér góðum,“ sagði Henning að lokum.

Fyrri greinMarkalaust hjá Hamri og Völsungi
Næsta greinHeilsusamleg skemmtun á Vorinu