Tilþrifalítið í lokaumferðinni

Kenan Turudija átti skalla í slá en nær komust Selfyssingar ekki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 0-1 á heimavelli gegn Fjölni í lokaumferð 1. deildar karla í knattspyrnu.

Leikurinn byrjaði í úrhellis rigningu og kulda og hvorugt liðið hafði að miklu að keppa í lokaumferðinni. Þrátt fyrir það spiluðu bæði lið ágætlega úti á vellinum en færin létu á sér standa. Fjölnir byrjaði leikinn af krafti en síðan tóku Selfyssingar yfir og stýrðu leiknum stærstan hluta fyrri hálfleiks.

Staðan var 0-0 í leikhléi og seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Fyrsta alvöru færið kom um miðjan seinni hálfleikinn og úr því skoruðu Fjölnismenn, nokkuð gegn gangi leiksins. Leikurinn opnaðist aðeins á lokakaflanum, bæði lið áttu góðar sóknir en Selfyssingar voru nær því að skora. Kenan Turudija átti skalla í þverslána og Adam Sveinbjörnsson fékk dauðafæri í uppbótartímanum en inn vildi boltinn ekki.

Selfoss varð í 8. sæti deildarinnar með 24 stig, Selfoss vann sjö leiki í sumar, gerði þrjú jafntefli og tapaði tólf leikjum.

Fyrri greinSex marka sigur í Tékklandi
Næsta greinÆgir upp á fleiri mörkum skoruðum