Tilhlökkun að komast aftur í takkaskóna

„Mér líst mjög vel á að vera komin aftur til liðs við Selfoss í nýja heimabænum mínum. Það er mjög mikil tilhlökkun hjá mér að komast aftur í takkaskóna,“ segir knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir sem skrifaði undir samning við Selfoss í dag.

Samningurinn gildir út þessa leiktíð en undirskriftin fór fram í sólinni á Selfossi á veitingastaðnum Kaffi Krús.

Dagný kemur til félagsins frá Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni en hún lék síðast knattspyrnu í október síðastliðnum, með íslenska landsliðinu, áður en hún tók sér hlé þar sem hún var barnshafandi. Henni og Ómari Páli Sigurbjartssyni fæddist svo sonur í júní síðastliðnum.

Dagný er öllum hnútum kunnug hjá Selfossliðinu en hún lék 35 leiki með félaginu í deild og bikar árin 2013 til 2014 og skoraði í þeim 21 mark. Undanfarna mánuði hefur hún þjálfað yngri flokka hjá félaginu.

„Líkamlegt ástand er hrikalega gott. Ég æfði vel á meðgöngunni og hef æft vel eftir fæðinguna og stefnan er sett á að mæta í takkaskónum í byrjun ágúst,“ sagði Dagný í samtali við sunnlenska.is.

„Á meðan ég var ólétt þá fékk ég aðeins í spjaldhrygginn og ég finn aðeins fyrir því ennþá og ætla ekki að fara of geyst af stað. Um leið og það er orðið gott þá er ég mætt í takkaskóna en stefnan er tekin á fyrsta leik þann 9. ágúst. Vonandi fæ ég þá nokkrar mínútur,“ segir Dagný en hún bindur vonir við að ná mikilvægum landsleikjum í undankeppni HM í byrjun september.

„Ef planið stendur og ég get byrjað að spila fótbolta 9. ágúst þá geri ég mér auðvitað vonir um að vera valin í landsleikina. Ég stefni að því en ég þarf fyrst að ná mínútum með Selfoss og spila vel en ég held að ég sé í fínu standi og um leið og spjaldhryggurinn er orðinn góður þá get ég farið að spila,“ bætir Dagný við.

Hún segir að barnauppeldið gangi vel og litli drengurinn hafi verið tillitssamur við móður sína, hvað fótboltann varðar.

„Það gengur hrikalega vel. Ég æfði rosalega vel á meðgöngunni en hann kom aðeins fyrr en áætlað var, fæddist eftir 35 vikur og 6 daga, þannig að ég var ekki alveg búin að trappa æfingarnar niður fyrir fæðinguna. En ég æfði vel alla meðgönguna og strax uppi á spítala var ég farin að gera styrktaræfingar fyrir grindina og trappaði mig svo upp í æfingar fjórum dögum eftir fæðinguna með því að fara í göngutúra. En hann er mjög vær og góður og mér er sagt að ég hafi verið mjög heppin með eintak, þannig að ég get ekki kvartað. Hann kom í heiminn tveimur dögum fyrir HM og gaf mér meiri tíma til þess að ná leikjum í sumar, þannig að hann hugsaði greinilega mjög hlýtt til mín,“ sagði Dagný að lokum.

Fyrri grein„Erum í skýjunum með viðtökurnar“
Næsta greinElmar þenur raddböndin á Sólheimum