„Tilfinningin að tilheyra liði er það sem stendur upp úr”

„Já, nú er ég alveg hættur. Það er kominn tími til þess þegar maður hefur ekki lengur löngunina til að spila,” segir Sebastian Alexandersson.

Hann lék sinn 700. og síðasta keppnisleik í handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi þann 18. desember sl. þegar Selfoss og Mílan mættust.

Sebastian spilaði lengi með Selfyssingum og þjálfaði liðið í nokkur ár, en hann er núverandi þjálfari kvennaliðs félagsins. Hann er einnig aðstoðarþjálfari Mílunnar og þess vegna spilaði hann með Mílunni í lokaleiknum gegn Selfyssingum.

Sebastian verður 46 ára gamall á næsta ári og hefur leikið handbolta í meistaraflokki síðan árið 1989. Hann stóð sig vel í leiknum, varði fyrstu þrjú skotin sem komu á markið og 18 skot alls. Þá skoraði hann einnig eitt mark úr vítakasti.

„Það var skorað á mig að gera nokkra hluti í lokaleiknum sem ég hef gert áður á mínum ferli. Eitt af því var að taka eitt víti í viðbót. Þetta var fimmta vítið sem ég tek á ferlinum og ég er með 100% nýtingu,” segir Sebastian sem var mjög sáttur við síðasta leikinn.

Að loknum löngum ferli er það annað en met og verðlaunapeningar sem skilja mest eftir sig. „Tilfinningin að tilheyra liði er það sem stendur upp úr,” segir Sebastian.

Sjá nánar í viðtali við Sebastian Alexandersson í jólalesbók Sunnlenska fréttablaðsins

Fyrri greinÖkklabrotnaði á jóladag
Næsta greinMest lesnu fréttir ársins 2015