Tilþrifin hefjast við Hellu í dag

Fyrri dagur Hellutorfærunnar er í dag og má búast við miklum tilþrifum í og við Hróarslæk, austan við Hellu, eftir hádegi.

Tvær keppnir verða um helgina, í dag og á morgun og hefjast báðar kl. 13. Báðar umferðirnar eru hluti af FIA-NEZ heimsmeistaramótinu og sömuleiðis Íslandsmótinu. Keppt er í þremur flokkum; sérútbúnum, götubílum og sérútbúnum götubílum.

Níu sunnlendingar eru skráðir til leiks um helgina. Í sérútbúna flokkum skal fyrstan telja núverandi heimsmeistara, Jón Örn Ingileifsson, en hann leiðir einnig Íslandsmótið. Auk hans keppa Hafsteinn Þorvaldsson, Björn Bragi Sævarsson, Benedikt Helgi Sigfússon, Jóhann Rúnarsson og Róbert Agnarsson í þessum flokki.

Í flokki sérútbúinna götubíla keppir Daníel Karlsson og í flokki götubíla keppa þeir Ívar Guðmundsson og Haukur Þorvaldsson en Haukur leiðir keppni á Íslandsmótinu í þessum flokki.

Eins og áður er það Flugbjörgunarsveitin á Hellu sem hefur veg og vanda af keppnishaldinu.

Fyrri greinStórlega dregið úr gosinu
Næsta greinPáll Stefánsson: Pólitíkin í Ölfusi