Tilþrifalítið í Grafarvoginum

Selfyssingar féllu úr leik í Valitorbikar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tapaði 1-0 fyrir Fjölni á útivelli.

Fjölnismenn komust yfir á 10. mínútu leiksins með skallamarki eftir aukaspyrnu. Leikurinn var í járnum eftir það en Selfyssingar fengu engin almennileg færi.

Staðan var 1-0 í hálfleik og strax á 2. mínútu seinni hálfleiks fækkaði um einn í liði Fjölnis þegar leikmaður þeirra fékk sitt annað gula spjald.

Selfoss náði ekki að nýta sér liðsmuninn og á 70. mínútu jafnaði dómari leiksins, Þóroddur Hjaltalín jr. í liðunum þegar hann gaf Babacar Sarr sitt annað gula spjald fyrir brot.

Selfyssingar lágu mjög á Fjölni á lokamínútunum án þess að fá mörg færi. Viðar Kjartansson fékk besta færi þeirra vínrauðu á lokamínútunni en hitti ekki á rammann úr góðri stöðu.