Tilþrifalítið hjá Stokkseyringum

Stokkseyri steinlá þegar liðið fékk Álftanes í heimsókn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 0-6, gestunum í vil.

Fyrri hálfleikur var nokkuð rólegur, Álftanes var meira með boltann en skapaði sér fá færi. Þrátt fyrir það höfðu þeir 0-2 forystu í hálfleik. Á 12. mínútu komust gestirnir yfir með glæsilegu skoti upp í samskeytin úr aukaspyrnu vel fyrir utan teig og á 21. mínútu sóttu gestirnir upp vinstra megin, boltinn barst fyrir markið og fyrirgjöfin small í fjærstönginni og inn. Í millitíðinni höfðu gestirnir átt stangarskot utan af velli.

Fyrsta markskot Stokkseyringa leit dagsins ljós á 28. mínútu en það var vonlítil tilraun utan af velli. Á 39. mínútu komust gestirnir í sitt fyrsta alvöru færi, með dyggri aðstoð varnarmanna Stokkseyrar en skot gestanna fór rétt framhjá markinu.

Staðan var 0-2 í hálfleik en gestirnir komust í 0-3 strax á 3. mínútu síðari hálfleiks. Ársæll Einar Ársælsson, nýr markvörður Stokkseyrar, náði þá naumlega að koma í veg fyrir sjálfsmark en Stokkseyringum gekk illa að koma frákastinu út úr teignum og gestirnir voru á undan í boltann.

Leikurinn var rólegur lengst af síðari hálfleik en heimamenn voru nálægt því að minnka muninn þegar markvörður gestanna blakaði lúmskri aukaspyrnu frá Arnari Þór Ingólfssyni yfir markið á 71. mínútu. Mínútu síðar áttu gestirnir skot rétt yfir markið eftir skyndisókn.

Varnarleikur Stokkseyringa var oft skrautlegur og gestirnir nýttu sér mistök heimamanna á 78. mínútu og skoruðu þá sitt fjórða mark. Tveimur mínútum síðar varði Ársæll vel skot af stuttu færi eftir skyndisókn en hann kom engum vörnum við þegar Álftanes skoraði sitt fimmta mark á 81. mínútu með skalla af stuttu færi.

Gestirnir hefðu getað bætt fleiri mörkum við því þeir átti skalla í stöng áður en þeir skoruðu sjötta markið á 85. mínútu en markið kom uppúr engu og aftur var vörn Stokkseyringa sofandi.

Stokkseyringar ógnuðu marki Álftaness nánast ekkert allan leikinn og leynivopn liðsins, þeir Kjartan Þór Helgason og Steinn Skúlason náðu ekki að setja mark sitt á leikinn þegar þeir komu inná undir lokin.

Stokkseyri er áfram í botnsæti A-riðils 4. deildar með 3 stig.

Fyrri greinHandverk og hádegismatur á Landvegamótum
Næsta greinKirkjan við veginn