„Þvílík upplifun að vera þarna“

Valdís Hrönn, Örvar Arnarson þjálfari og María í CrossFit stöðinni á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

María Sigurjónsdóttir og Valdís Hrönn Jónsdóttir, íþróttafélaginu Suðra, náðu frábærum árangri á Special Olympics, sem fram fór í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og lauk í síðustu viku.

Báðar eru þær búsettar á Selfossi en Valdís er frá Gillastöðum í Dalabyggð og María frá Mið-Mörk undir Eyjafjöllum. Þær æfa kraftlyftingar með Suðra en þetta er í fyrsta skipti sem Ísland sendir keppendur til leiks á Special Olympics í kraftlyftingum kvenna.

Í kraftlyftingum eru veitt verðlaun fyrir hverja grein og einnig fyrir samanlögð úrslit. María vann gull í réttstöðulyftu og silfur bæði í hnébeygju og bekkpressu. Samanlagt varð hún í 2. sæti og hampaði því enn einum silfurverðlaununum.

Valdísi gekk sömuleiðis vel Hún fékk brons í réttstöðulyftu og hnébeygju og varð fjórða í bekkpressu. Samanlagt varð hún í 4. sæti.

„Gætum ekki verið ánægðari með þetta“
Sunnlenska.is hitti þær Völu og Maríu á æfingu í CrossFit Selfoss, ásamt þjálfara þeirra Örvari Arnarsyni, en hann fylgdi þeim á mótið í Abu Dhabi.

„Þetta var alveg geggjað, alveg rosalega skemmtilegt og þvílík upplifun að vera þarna. Mótið var í sjö daga og við kepptum á seinasta keppnisdeginum en við gátum æft á hverjum degi og líka slakað á í sólinni þannig að þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Vala.

Maríu fannst mótið líka mikil upplifun en þetta var í fyrsta skipti sem hún fer til útlanda.

„Það er mikil upplifun að fara í svona langt ferðalag en þetta var alveg ágætlega gaman og skemmtilegt að keppa. Okkur gekk vel í keppninni og við vorum við okkar besta árangur sem var gott þannig að við gætum bara ekki verið ánægðari með þetta,“ bætti María við.

Fjölmennasti íþróttaviðburður ársins
Special Olympics eru sannkallaður stórviðburður en mótið er fjölmennasti íþróttaviðburður sem haldinn verður í heiminum á þessu ári. Þar kepptu um 7.500 keppendur frá 190 löndum.

Fyrri greinTruflun á umferð við Eystri-Rangá
Næsta greinTímabilið líklega búið hjá Einari