„Þurfum að fækka mistökunum og þétta vörnina“

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var við ofurefli að etja þegar Selfoss tók á móti Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Selfyssingar hefðu þurft fullkominn leik til að leggja Val en misstu gestina fram úr sér strax í upphafi.

„Það komu góðir kaflar inn á milli en svo erum við að tapa boltanum klaufalega og gerum varnarmistök. Valsmenn hafa oft klárað leiki á fyrsta korterinu og halda það svo út og sú var raunin í kvöld,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við erum með unga leikmenn sem eru að fá dýrmæta reynslu í efstu deild og drögum lærdóm af hverjum leik. Við þurfum að fækka mistökunum og þétta vörnina frá fyrstu mínútu, þá getur allt gerst.“

Valur komst í 3-10 eftir fimmtán mínútna leik en þá löguðu Selfyssingar vörnina og staðan var 10-16 í hálfleik. Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda. Selfyssingar sýndu reyndar feikna baráttu og lögðu allt sitt í leikinn áður en þeir þurftu að játa sig sigraða, 19-32.

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 3, Gunnar Kári Bragason, Haukur Páll Hallgrímsson, Einar Sverrisson og Richard Sæþór Sigurðsson 2 og Jason Dagur Þórisson 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 5 skot í marki Selfoss og var með 14% markvörslu.

Fyrri greinVæri til í að vera Jesú Kristur
Næsta greinRisasigur í fyrsta deildarleik vetrarins