Þruma frá Þór bjargaði Selfyssingum

Þór Llorens Þórðarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann dramatískan sigur á Grindavík í 1. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 3-2 en Þór Llorens Þórðarson skoraði sigurmarkið í uppbótartímanum.

Selfyssingar byrjuðu mjög vel í leiknum og strax á 6. mínútu sendi Þorsteinn Daníel Þorsteinsson boltann innfyrir á Gary Martin. Martin beið eftir að samherjarnir myndu láta sjá sig í teignum en enginn mætti þannig að hann lét bara vaða úr þröngu færi, 1-0.

Heimamenn héldu vel á spöðunum í framhaldinu og á 36. mínútu var Martin aftur á ferðinni. Emir Dokara átti þá frábæra sendingu innfyrir og Martin lyfti boltanum laglega yfir markvörð Grindavíkur.

Staðan var 2-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var í jafnvægi framan af, bæði lið áttu álitlegar sóknir og sköpuðu hálffæri. Á 70. mínútu sluppu Grindvíkingar innfyrir en Þormar Elvarsson renndi sér fyrir skotið. Líklega fékk hann boltann í höndina því annars ágætur dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu.

Grindvíkingar skoruðu úr vítinu og í kjölfarið fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum sem ætluðu sér að verja forskotið en bökkuðu fullmikið. Það var óhætt að segja að jöfnunarmark Grindvíkinga hafi legið í loftinu. Stíflan brast á 88. mínútu eftir snarpa sókn og staðan orðin 2-2 með lítið á klukkunni.

Selfyssingar gáfust ekki upp og þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma geystust þeir upp völlinn. Gary Martin sendi boltann inn á teiginn þar sem Þór Llorens var mættur og þrumaði boltanum glæsilega í netið. Hann tryggði Selfyssingum sigurinn og mikilvæg þrjú stig.

Selfoss hefur nú aftur náð fimm stiga forskoti á Þrótt sem er í fallsæti. Selfoss er með 15 stig í 10. sæti en Þróttur með 10 stig í 11. sætinu.

Fyrri greinVeggjalist Þórönnu prýðir opin svæði
Næsta greinHamar kom til baka – KFR gaf eftir