Ægir tapaði þriðja leiknum í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í dag þegar Grótta kom í heimsókn í Þorlákshöfn.
Aldrei þessu vant var gjóla í Þorlákshöfn í dag og gestirnir léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Gróttumenn komust yfir á 20. mínútu og bættu öðru marki við skömmu fyrir hálfleik, 0-2 í leikhléi.
Ægismenn pressuðu stíft í seinni hálfleiknum og áttu bæði skot í stöng og slá áður en Grótta skoraði þriðja markið á 58. mínútu. Ægir hélt áfram að sækja og Bilal Kamal skoraði sárabótarmark fyrir Ægi, beint úr hornspyrnu, fimmtán mínútum fyrir leikslok. Nær komust þeir gulu ekki og Grótta hirti stigin þrjú.
Á sama tíma vann Þróttur Vogum Hauka þannig að Þróttarar veltu Ægi úr toppsætinu. Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni er Þróttur á toppnum með 36 stig, Ægir og Grótta eru með 35 stig en Ægir hefur talsvert betra markahlutfall.

