Þröstur sæmdur gullmerki HSK

Þröstur Guðnason og Guðríður Aadnegaard, formaður HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þröstur Guðnason, formaður Umf. Ingólfs í Holtum, var sæmdur gullmerki Héraðssambandsins Skarphéðins á 101. Héraðsþingi HSK, sem haldið var á Hellu í síðustu viku. Við sama tilefni var hann einnig sæmdur starfsmerki Ungmennafélags Íslands.

Þröstur hefur um áratugaskeið tekið þátt í störfum íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar, en hann hefur verið formaður Umf. Ingólfs frá árinu 1987, eða í 36 ár. Líklega hefur enginn formaður aðildarfélags HSK setið svo lengi samfellt sem formaður.

Þröstur átti sæti í varastjórn HSK á árunum 1999-2004 og mætti á þeim árum m.a. á þing UMFÍ og ÍSÍ sem fulltrúi HSK. Hann tók þátt í íþróttum á sínum yngri árum og keppti m.a. á héraðsmótum í glímu.

Um áratugaskeið hefur Þröstur mætt nær árlega á héraðsþing HSK sem fulltrúi síns félags. Hann er einn fárra sem hafa náð því að vinna bæði sleifarkeppnina á þinginu og vera valinn
matmaður héraðsþingsins. Þess má geta að Þröstur var þingforseti á héraðsþinginu á Laugalandi 2007 og á þinginu á Hellu 2011.

Kata og Óskar sæmd gullmerki ÍSÍ
Fleiri Sunnlendingar voru heiðraðir á þinginu á Hellu fyrir mikilvægt framlag til íþróttastarfs í héraðinu. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, sæmdi hjónin Katrínu Aðalbjörnsdóttur og Óskar Pálsson úr Golfklúbbnum Hellu gullmerki ÍSÍ og Gest Einarsson, Umf. Gnúpverja og varastjórnarmann í HSK, silfurmerki ÍSÍ. Sem fyrr segir var Þröstur sæmdur starfsmerki UMFÍ en Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Ungmennafélags Íslands, sæmdi einnig Bjarna Jóhannsson, Golfklúbbnum Hellu, starfsmerki UMFÍ.

Kata og Óskar með gullmerki ÍSÍ, ásamt Gunnari Bragasyni stjórnarmanni ÍSÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gestur frá Hæli var sæmdur silfurmerki ÍSÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ragnheiður Högnadóttir sæmdi Bjarna Jóhannsson á Hellu starfsmerki UMFÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamarsmenn tryggðu sér deildarmeistatitilinn
Næsta greinValgerður í 18. sæti á heimslistanum