Þrjú sunnlensk lið í 32-liða úrslitin

Hjörvar Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss, Ægir og Uppsveitir verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu næstkomandi þriðjudag. Þau unnu öll sína leiki í dag en KFR féll úr keppni eftir framlengdan leik.

Guðmundur Tyrfingsson skoraði þrennu fyrir Selfoss sem vann 0-8 sigur á 4. deildarliði Knattspyrnufélags Kópavogs en liðin mættust í Fagralundi. Guðmundur kom Selfyssingum yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 3. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Gary Martin og Þór Llorens Þórðarsyni. Staðan var 0-3 í hálfleik og á síðasta hálftíma leiksins röðuðu Selfyssingar inn mörkum. Guðmundur skoraði tvisvar, Gary Martin annað og þeir Aron Einarsson og Aron Fannar Birgisson skoruðu sitt markið hvor.

Það var líka markaveisla í Fífunni í Kópavogi þar sem Ægir heimsótti 5. deildarlið Smára. Dimitrije Cokic kom Ægi yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði svo tvisvar með stuttu millibili. Staðan var 0-3 í hálfleik og í seinni hálfleiknum bætti Brynjólfur Þór Eyþórsson við tveimur mörkum fyrir Ægi en í millitíðinni skoraði Smári sárabótarmark. Atli Rafn Guðbjartsson rak svo endahnútinn á 1-7 sigur Ægis.

Uppsveitir buðu KÁ í heimsókn á Selfossvöll og úr varð sjö marka veisla. Gestirnir komust yfir á 7. mínútu en Tómas Stitelmann og George Razvan skoruðu fyrir Uppsveitir undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-1 í leikhléi. Víkingur Freyr Erlingsson og Máni Snær Benediktsson komu Uppsveitum í 4-1 um miðjan seinni hálfleikinn en gestirnir voru ekki hættir og skoruðu tvö mörk á síðustu tíu mínútum leiksins, lokatölur 4-3.

Að endingu mættust KFR og KH mættust í hörkuleik á Selfossvelli. Leikurinn var markalaus í venjulegum leiktíma og Rangæingum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn eftir að KH missti mann af velli með rautt spjald á 79. mínútu. Grípa þurfti til framlengingar og þegar tólf mínútur voru liðnar af henni skoraði KH eina mark leiksins. Jafnt var í liðunum þegar flautað var til leiksloka en Adam Örn Sveinbjörnsson fékk sitt annað gula spjald í blálokin. Lokatölur 0-1 og KFR úr leik í bikarnum.

Ægismenn voru í miklum ham í Fífunni í Kópavogi í dag. Ljósmynd/Knattspyrnufélagið Ægir
Fyrri greinÞórsarar svöruðu fyrir sig
Næsta greinVilja loka inn í Reykjadal vegna aurbleytu