Þrjú sæmd starfsmerki UMFÍ

Gestur, Ingvar, Ragnheiður og Helga á þinginu í Árnesi. Ljósmynd/Engilbert Olgeirsson

Þrír félagsmenn úr Umf. Gnúpverja og Umf. Skeiðamanna voru sæmdir starfsmerki Ungmennafélags Íslands á Héraðsþingi HSK sem fram fór í Árnesi í síðustu viku.

Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ, nældi merki í barminn á Gesti Einarssyni, Helgu Kolbeinsdóttur og Ingvari Garðarssyni.

Gestur hefur átt sæti í varastjórn HSK frá árinu 2014. Hann hefur tekið virkan þátt í störfum hreyfingarinnar og t.a.m. verið fulltrúi HSK á þingum ÍSÍ og UMFÍ undanfarin ár. Hann hefur átt sæti í kjörnefnd HSK undanfarin ár og er einnig formaður knattspyrnunefndar HSK. Frá barnsaldri hefur hann starfað ötullega að íþróttamálum með Umf. Gnúpverja í sinni heimasveit.

Helga tók sæti í Unglingalandsmótsnefnd HSK árið 2022, en hafði í mörg ár áður mætt á mótin og boðið fram starfskrafta sína. Hún sat í stjórn Umf. Gnúpverja frá 2014 til 2017 og átti hún sæti í stjórn HSK árið 2015. Helga var um tíma í stjórn frjálsíþróttadeildar Umf. Hrunamannna og tók í rúman áratug virkan þátt í störfum deildarinnar. Hún er jafnan tilbúin að starfa á mótum sem sjálfboðaliði og taka þátt í starfinu, en þess má geta að hún var þingritari á Héraðsþinginu í Árnesi.

Ingvar hefur alla tíð haldið tryggð við sitt gamla félag og hefur í 40 ár keppt fyrir Umf. Skeiðamanna og HSK, en hann keppti m.a. á tólf2 landsmótum UMFÍ í röð frá árinu 1978-2013. Ingvar hefur verið formaður almenningsíþróttanefndar HSK frá árinu 1995, en árlegt verkefni nefndarinnar er að halda Bláskógaskokkið. Hann átti sæti stjórn frjálsíþróttaráðs HSK frá 2005-2017 og hefur setið bæði FRÍ þing og héraðsþing í gegnum tíðina. Þá hefur hann unnið sem sjálfboðaliði á fjölda móta og viðburða í hreyfingunni til áratuga.

Fyrri greinFjórir Sunnlendingar í Bugsy Malone
Næsta greinÉg vil að allir fái að vera eins og þeir eru