Þrjú rauð og þrjú víti í uppgjöri gegn Skautafélaginu

Björn Mikael Karelsson varði vítaspyrnu í stöðunni 1-2 og tryggði sínum mönnum sigurinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga vann mikilvægan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur í toppbaráttu B-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Liðin mættust á Þróttarvelli í Laugardal og það blés ekki byrlega fyrir Rangæingum í upphafi því SR komst yfir strax á 3. mínútu leiksins. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks og var staðan 1-0 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var mjög fjörugur. Leikmaður SR braut af sér innan teigs á 58. mínútu og fékk rautt spjald og Rangæingar víti. Aron Daníel Arnalds brást ekki bogalistin á vítapunktinum og jafnaði metin. 

Á 66. mínútu varð jafnt í liðum þegar Benedikt Benediktsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt en KFR lét það ekki stöðva sig og krækti í aðra vítaspyrnu á 68. mínútu. Aftur fór Aron á punktinn og skoraði það sem reyndist sigurmarkið.

Fjörið var þó ekki búið því á lokakaflanum fékk SR vítaspyrnu en Björn Mikael Karelsson, markvörður KFR, varði vítið og tryggði félögum sínum sigurinn. Rangæingar luku leik níu á móti tíu því þegar fimm mínútur voru eftir fékk markaskorarinn Aron sitt annað gula spjald og því sendur með rautt spjald í sturtu. 

Lokatölur urðu 1-2 og KFR er áfram í 2. sæti riðilsins, nú með 11 stig, einu stigi á eftir Skautafélaginu sem er í toppsætinu.

Fyrri greinHamar tapaði á Egilsstöðum
Næsta greinJafnt hjá Ægi og Tindastól