Þrjú rauð á loft á Selfossvelli

Þorsteinn Aron Antonsson og Ingvi Rafn Óskarsson reyna að stöðva Ölfusinginn Guðmund Karl Guðmundsson, sem var einn besti maður vallarins í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss fékk Fjölni í heimsókn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Úr varð hörkuleikur þar sem Fjölnir hafði naumlega betur, 1-2.

Leikurinn var jafn allan tímann, lítið að frétta framan af en á 24. mínútu spiluðu Fjölnismenn sig auðveldlega í gegnum varnarlínu Selfoss og komust yfir, 0-1. Fimm mínútum síðar fengu Selfyssingar aukaspyrnu úti á miðjum velli, hún barst á kollinn á Þorsteini Aroni Antonssyni sem skallaði boltann fyrir fætur Guðmundar Tyrfingssonar. Guðmundur plataði varnarmenn Fjölnis með því að kiksa boltann og lagði hann svo í netið með laglegri ristarspyrnu.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks misstu Selfyssingar svo boltann á hættulegum stað í uppspilinu og Fjölnismenn refsuðu með marki úr hraðaupplhlaupi. Markskotið reyndist síðasta spyrna fyrri hálfleiks og staðan var 1-2 í leikhléi.

Mörkin urðu reyndar ekki fleiri í leiknum en seinni hálfleikurinn var samt ákaflega viðburðaríkur. Breki Baxter fékk tvö gul spjöld með fjögurra mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks, það fyrra fyrir leikaraskap fyrir utan vítateig Fjölnis og það síðara fyrir að vera allt of seinn í tæklingu úti á miðjum vellinum.

Manni færri voru Selfyssingar síst lakara liðið á vellinum og þeir komu sér oft í góðar stöður. Á 83. mínútu fékk svo leikmaður Fjölnis sitt annað gula spjald og eftir það pökkuðu Fjölnismenn í vörn og reyndu að hanga á sigrinum. Það tókst, því þrátt fyrir að Selfoss lægi í sókn tókst þeim ekki að koma boltanum í netið. Í uppbótartímanum fékk svo Gonzalo Zamorano beint rautt spjald fyrir að hrækja á leikmann Fjölnis. Zamorano hafði komið inná sem varamaður og tókst ekki að koma sér í byrjunarliðið í næsta leik með þessum tilburðum.

Eftir þrjár umferðir í deildinni eru Selfyssingar með 3 stig í 7. sæti en nær öll liðin fyrir neðan þá eiga leik til góða.

Fyrri greinÞriggja daga vakt framundan á Sviðinu
Næsta greinNammibræður slá í gegn