Þrjú rauð á Grýluvelli – Uppsveitir töpuðu úti

Máni Snær Benediktsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti Tindastól í hörkuleik í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og Uppsveitir heimsóttu KH.

Arnar Ólafsson kom Tindastól yfir á 16. mínútu á Grýluvelli og var það eina mark fyrri hálfleiks. Hamar missti Rodrigo Depetris af velli á 43. mínútu eftir tvö gul spjöld og manni fleiri náði Jón Gísli Stefánsson að koma Tindastól í 0-2 á upphafsmínútu seinni hálfleiks.

Máni Snær Benediktsson minnkaði muninn á 56. mínútu og skömmu síðar sparkaði Domi í Mána Snæ í pirringi og fékk að líta rauða spjaldið. Máni Snær þakkaði fyrir sig og jafnaði metin með góðu marki tveimur mínútum síðar, 2-2. En gestirnir voru ekki hættir. David Toro kom þeim yfir á 69. mínútu og á 83. mínútu breytti Jóhann Daði Gíslason stöðunni í 2-4. Hamar náði ekki að klóra í bakkann og staða þeirra versnaði enn frekar í uppbótartímanum þegar Unnar Magnússon fékk beint rautt spjald fyrir tæklingu og þótti mörgum í brekkunni það harður dómur.

Öll mörkin skoruð í fyrri hálfleik
Uppsveitir heimsóttu KH að Hlíðarenda og þar kom Sigurður Dagsson heimamönnum yfir á fyrstu mínútu leiksins. Emil Nönnu Sigurbjörnsson og Kristinn Kári Sigurðarson bættu við mörkum fyrir KH í fyrri hálfleik og þar við sat. Seinni hálfleikur var markalaus og lokatölur 3-0.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 7. sæti með 21 stig og gæti náð 5. sætinu með góðum úrslitum í lokaumferðunum. Uppsveitamenn eru hins vegar fallnir, eru í neðsta sæti með 3 stig. Þessi tvö lið mætast einmitt í nágrannaslag á Flúðum næstkomandi fimmtudag.

Fyrri greinSelfoss leikur um 5. sætið
Næsta greinSnarræði nágranna bjargaði miklu