Þrjú mörk á lokakaflanum

Hamarskonur fagna marki. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tapaði 3-2 gegn KH á útivelli í C-deild deildarbikars kvenna í knattspyrnu í dag.

KH komst yfir á 22. mínútu með marki frá Evu Stefánsdóttur en Brynhildur Sif Viktorsdóttir jafnaði fyrir Hamar á 42. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var markalaus lengst af en fjörið byrjaði á lokakaflanum. Birta Ósk Sigurjónsdóttir kom KH aftur yfir á 77. mínútu en fjórum mínútum síðar jafnaði Katrín Rúnarsdóttir metin fyrir Hamar með marki úr vítaspyrnu. KH átti hins vegar síðasta orðið því Eva skoraði sitt annað mark þremur mínútum fyrir leikslok og tryggði KH 3-2 sigur.

Þetta var fyrsti leikur Hamars í riðlinum en aðrir andstæðingar liðsins eru Álftanes, Fjölnir, Fram og ÍR.