Þrjú Íslandsmet og sex héraðsmet á Silfurleikunum

Anna Metta á verðlaunapalli í þrístökki ásamt þeim Bryndísi Maríu Jónsdóttur úr ÍR og Berglindi Sif Ásþórsdóttur úr FH. Ljósmynd/Aðsend

Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss og Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, byrja innanhússtímabilið í frjálsum íþróttum af krafti en þau settu bæði ný Íslandsmet á Silfurleikum ÍR sem fram fóru í Laugardalshöllinni um helgina.

Anna Metta stórbætti sig í þrístökki þegar hún stökk 11,93 m og bætti Íslandsmet bæði í flokki 15 ára og í flokki 16-17 ára. Í 15 ára flokki bætti hún eigið met um 34 sm en fyrra metið í flokki 16-17 ára átti Þórdís Eva Steinsdóttir, FH. Anna Metta bætti það um 29 sm. Metstökk hennar er einnig HSK met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Í 20-22 ára flokknum bætti hún 20 ára gamalt met Ágústu Tryggvadóttur. Þetta voru ekki einu gullverðlaun Önnu Mettu á Silfurleikunum því hún sigraði einnig í hástökki, þar sem hún stökk yfir 1,59 m.

Ívar Ylur á verðlaunapalli í grindahlaupi ásamt Jörundi Þór Hákonarsyni úr Ármanni og Halldóri Stefánssyni úr UMSS. Ljósmynd/Aðsend

Ívar Ylur stórbætti Íslandsmet Tristans Freys Jónssonar, ÍR, í 60 m grindahlaupi í flokki 16-17 ára. Ívar Ylur hljóp á tímanum 8,04 sek en eldra Íslandsmetið var 8,25 sek. Þetta er auðvitað einnig HSK met í þessum aldursflokki en Ívar Ylur átti fyrra héraðsmetið sjálfur. Ívar Ylur sigraði einnig í 60 m hlaupi á tímanum 7,29 sek, þar sem hann var aðeins 0,05 sek frá héraðsmeti Elíasar Högnasonar, Umf. Þórsmörk, í flokki 16-17 ára.

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, bætti HSK met Bríetar Bragadóttur í flokki 16-17 ára um 0,10 sek er hún kom í mark í 60 m grindahlaupi á tímanum 9,11 sek og vann silfurverðlaun. Helga Fjóla sigraði svo í hástökki í flokki með því að vippa sér yfir 1,59 m.

Þá vann Hjálmar Vilhelm Rúnarsson gullverðlaun í kúluvarpi í flokki 16-17 ára er hann varpaði kúlunni 15,44 m.

Allir þátttakendur 11 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun á mótinu. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinRán og Rakel kynna bækur sínar á Selfossi
Næsta greinNýtt orgel borið inn í Þingvallakirkju