Þrjú HSK met á Gaflaranum

Bryndís Embla á verðlaunapalli í kúluvarpi, ásamt Aldísi Fönn Benediktsdóttur, Hrunamönnum og Snædísi Erlu Halldórsdóttur, ÍR. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Þrjú HSK met voru sett á frjálsíþróttamótinu Gaflaranum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

Helga Fjóla Erlendsdóttir, Heklu/Garpi, sigraði í 400 m hlaupi 13 ára stúlkna á tímanum 65,87 sek og Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 400 m hlaupi 14 ára stúlkna á tímanum 63,32 sek.

Bríet Bragadóttir átti metin í báðum aldursflokkunum og voru þau orðin sjö ára gömul. Helga Fjóla bætti metið í 13 ára flokknum um 0,4 sekúndur og Hugrún Birna metið í 14 ára flokknum um 1,27 sekúndur.

Þá sigraði Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, í kúluvarpi 13 ára stúlkna þegar hún kastaði 13,48 m og bætti sjö ára gamalt met systur sinnar, Hildar Helgu, um 10 sentimetra.

Sunnlensku keppendurnir náðu margir hverjir góðum árangri á mótinu og sóttu til að mynda fjórtán gullverðlaun, átta silfurverðlaun og sextán bronsverðlaun.

Fyrri greinBjarki Norðurlandameistari þriðja árið í röð
Næsta greinAlvöru skellur á heimavelli