Þrjú glæsimörk í sigri Árborgar

Árborgarar fagna marki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg byrjar vel í hinni nýju 4. deild karla í knattspyrnu en keppni í henni hófst í kvöld. Árborg tók á móti KÁ á gervigrasinu á Selfossi og vann 3-1 sigur.

Þorsteinn Daníel Þorsteinsson kom Árborg yfir á 9. mínútu með frábæru skoti uppúr hornspyrnu Sveins Kristins Símonarsonar. Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik en staðan var 1-0 í leikhléi.

Leikurinn snerist í seinni hálfleik þar sem Árborg gekk illa að halda í boltann og KÁ sótti á köflum án afláts. Það var því gegn gangi leiksins þegar Sveinn Kristinn skoraði glæsilegt mark, beint úr hornspyrnu á 70. mínútu. KÁ menn voru slegnir út af laginu og þremur mínútum síðar gerði Kristinn Ásgeir Þorbergsson út um leikinn með marki úr þrumuskoti af löngu færi.

KÁ uppskar sárabótarmark á lokamínútu leiksins og lokatölur urðu 3-1.

Hamar og Uppsveitir eru einnig í nýju 4. deildinni. Hamar tekur á móti Skallagrími á föstudagskvöld og Uppsveitir heimsækja Tindastól á laugardaginn.

Fyrri greinÆgir náði í sitt fyrsta stig
Næsta greinGrýlupottahlaup 4/2023 – Úrslit